E. Phillips Oppenheim
Edward Phillips Oppenheim var gríðarlega vinsæll enskur rithöfundur sem skrifaði fjöldann allan af svokölluðum dægurbókmenntum; ævintýra- og spennusögum með rómantísku ívafi. Hafa margar sögur hans verið kvikmyndaðar með góðum árangri, sumar oftar en einu sinni.
Edward fæddist 22. október árið 1866 í Leicester á Englandi. Foreldrar hans versluðu með leðurvörur og eftir almennt nám starfaði Edward í tuttugu ár við fyrirtæki þeirra.
Fyrsta skáldsaga Oppenheims leit dagsins ljós árið 1887. Var það sagan Expiation. Náði hún töluverðum vinsældum og eftir það varð ekki aftur snúið.
Skrifaði hann allt í allt yfir eitt hundrað skáldsögur frá 1887-1943, auk fjölda smásagna.
Bækur Oppenheims seldust gríðarlega alla tíð meðan hann lifði og hann varð brátt auðugur maður. Keypti hann sér villu í Frakklandi og einnig hús á Guernsey.
Árið 1892 gekk hann að eiga Elisu Clöru Hopkins og héldu þau heimili í Leicester fram að fyrri heimsstyrjöldinni og eignuðust eina dóttur. Í fyrri heimsstyrjöldinni starfaði Oppenheim fyrir upplýsingaráðuneytið.
Hann lést 3. febrúar árið 1946 á Guernsey.